Aðgengismál í tækni snúast ekki um reglugerðir sem þarf að uppfylla: Inngildandi hönnun snýr að því að skapa stafræna upplifun sem virkar fyrir alla notendur. Talgervilstækni gegnir í lykilhlutverki í að gera ritaða texta aðgengilega fyrir fólk sem af einhverjum orskökum á í erfiðleikum með hefðbundinn lestur, t.d. vegna sjónskerðingar eða lesblindu.
Símarómur og aðgengi
Símarómur, talgervilsapp Grammateks fyrir snjalltæki, er þróaður með það í huga að falla vel að aðgengislausnum tækjanna.
Símarómur tengist m.a.:
- VoiceOver (iOS): Innbyggður skjálesari iPhone og iPad tækja
- Spoken Content (iOS): Innbyggt aðgengisforrit sem les texta eftir vali notanda á iPhone og iPad
- Android Aðgengisapp (Android Accessibility Suite) (Android): Aðgengisapp Google fyrir Android
- TalkBack (Android): Skjálesari Android aðgengisappsins
Talgervlar í námi og starfi
Vissir þú að rannsókn Félagsvísindastofnunar frá árinu 2023 sýndi fram á að um 20% ungmenna hafa greinda lesblindu? Það bendir til þess að sá hópur nemenda sé gríðarstór, sem þyrfti mun betra aðgengi að upplesnu námsefni til þess að blómstra í námi og að byggja upp sjálfstraust til þess að velja sér það nám sem hugurinn stefnir til. Fyrir þessa nemendur getur hágæða talgerving námsefnis á öllum skólastigum skipt sköpum.
Talgervilstækni heldur áfram að gagnast þessum hópi þegar út í atvinnulífið er komið, t.d. með sjálfvirkum upplestri á skjölum og skilaboðum.
Kantsteinaáhrifin
Hjólastólanotendur þurftu á sínum tíma að berjast fyrir því að skáhalli væri á gangstéttarbrúnum við gangbrautir og víðar. Þessi skáhalli, sem upphaflega var hugsaður sérstaklega fyrir hjólastóla, þykir nú sjálfsagður og kemur t.d. hjólreiðafólki og fólki með barnavagna til góða. Skáhallinn á gangstéttarbrúnum þykir með öðrum orðum í dag ekki vera nein sérlausn fyrir fólk í hjólastólum heldur gagnast hann öllum vegfarendum. Lærdómurinn af kantsteinaáhrifunum (e. the curb cut effect) er sá, að ef hönnun er inngildandi þá verður lausnin betri fyrir alla notendur.
Í tengslum við talgervilstækni sjáum við þessi áhrif greinilega: Talgervilar nýtast ekki einungis þeim sem eiga í erfiðleikum með hefðbundinn lestur. Fjöldi fólks kýs í dag frekar að hlusta en að lesa á hefðbundinn hátt, sérstaklega í aðstæðum þar sem hefðbundinn lestur er ekki mögulegur, eins og á keyrslu, við heimilisstörf eða úti á hreyfingu.
Áframhaldandi þróun
Áframhaldandi þróun okkar hjá Grammateki miðar að því að aðgengismál verði áfram í forgangi. Markmiðið er ekki bara að gera tæknina nothæfa, heldur að hún verði raunverulega hjálpleg og svari þörfum notenda - bæði þeirra, sem treysta á tæknina í daglegu lífi og þeirra sem nýta sér hana til hægðarauka.